Ferill 736. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1515  —  736. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um umferðaröryggisgjald o.fl.


     1.      Hver er heildarupphæð umferðaröryggisgjalds sl. ár og hvernig hefur fénu verið ráðstafað sundurliðað eftir verkefnum? Hvernig eru verkefnin ákveðin og þeim forgangsraðað?
    Innheimt umferðaröryggisgjald á árinu 2015 var 154 millj. kr. Samkvæmt fjárlögum fyrir sama ár var fjárveiting til Samgöngustofu á grundvelli umferðaröryggisgjalds hins vegar ákveðin 139,9 millj. kr.
    Umferðaröryggisgjaldi hefur verið ráðstafað með þeim hætti að 91,2 millj. kr. eru nýttar í launakostnað, 20 millj. kr. hafa verið nýttar í verkefni sem krefjast útlagðs kostnaðar og 42,8 millj. kr. hafa staðið undir kostnaðarhlutdeild í rekstri Samgöngustofu, svo sem húsnæði, rekstri kerfa og stoðþjónustu.
    Gjaldinu er ráðstafað til margvíslegra verkefna með það að markmiði að efla umferðaröryggi, draga úr umferðarslysum og óhöppum og auka fræðslu og forvarnastarf fyrir almenning og hagsmunaaðila. Flest umferðaröryggisverkefni sem Samgöngustofa sinnir krefjast ekki útlagðs kostnaðar, aðeins kostnaðar við starfsmannahald. Áhersla hefur verið lögð á forvarna- og fræðslustarf fyrir börn og unglinga. Byggt hefur verið á starfi undanfarinna ára og hefur efni sem áður hefur verið unnið verið nýtt í starfinu. Reynt hefur verið að ná til sem flestra með sem minnstum tilkostnaði.
    Greining hefur ekki verið gerð á kostnaði við einstök verkefni út frá vinnuframlagi starfsmanna en útlagður kostnaður hefur eins og áður segir verið um það bil 20 millj. kr.
    Unnið hefur verið að eftirtöldum verkefnum sl. ár:
     1.      Umferðarþing – haldið annað hvert ár; verður næst á haustdögum 2016.
     2.      Umferðarfræðsla í framhaldsskólum – stuttmyndir sýndar nemendum.
     3.      Umferðarskólinn – leikskólaheimsóknir á öllu landinu.
     4.      Umferðarskólinn – bókasendingar til 3–7 ára barna.
     5.      Jóladagatal á vefnum fyrir gunnskólanemendur.
     6.      Útgáfa bæklinga, einblöðunga o.fl. um öryggismál.
     7.      Fræðsluefni á vef – viðhald og uppfærsla fræðsluefnis.
     8.      Fræðsluefni fyrir erlenda ökumenn – stýrisspjöld og fræðsluefni útbúið.
     9.      Fræðslumyndir um hjólreiðar sýndar í sjónvarpi.
     10.      Átak með Sjóvá – beint að atvinnubílstjórum.
     11.      Könnun á öryggi barna í bíl við leik- og grunnskóla í samstarfi við Landsbjörg.
     12.      Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa.

     2.      Hve mikið af gjaldinu fer í greiðslu launakostnaðar, hvað er þar um að ræða mörg stöðugildi og hvaða titil hafa þessi störf? Hve mikið af gjaldinu fer í aðkeypta þjónustu?
    Launakostnaður sem fjármagnaður er af umferðaröryggisgjaldi var 91,2 millj. kr., en um það bil 5,5 ársverk Samgöngustofu fara í að sinna verkefnum umferðaröryggismála. Um er að ræða tvo fulltrúa sem eingöngu sinna umferðaröryggismálum en jafnframt er gert ráð fyrir ákveðnu vinnuframlagi þriggja sérfræðinga auk deildarstjóra, framkvæmdastjóra og forstjóra.

     3.      Hvaða öðrum verkefnum sem tengjast umferðaröryggi kemur Samgöngustofa að?
    Samgöngustofa hefur tekið þátt í og verið bakhjarl skipulagðra ráðstefna og málþinga um umferðaröryggismál. Einnig hefur Samgöngustofa verið þátttakandi í herferðum á borð við „Göngum í skólann“, „Hjólað í skólann“ og „Hjólað í vinnuna“.